Getur slæmur efnahagur í raun verið góður?
8.7.2008 | 12:38
Það er allt að fara til fjandans þessa dagana. Ekki satt?
Ef maður gerir ekkert annað en skoða fjölmiðla og hlusta á álit annarra, þá virðist það vera málið. En er það reyndin? Eins og einhver orðaði það... skynjun skapar raunveruleikann. Þegar við samþykkum ákveðinn ramma... þá þvingum við oft "staðreyndir" til að passa inní þann ramma.
Vissulega er það reyndar rétt að efnahagurinn, viðskiptalífið og ýmislegt hefur kólnað. Það er hinsvegar ekki stopp. Enn eru hlutir að gerast. Og ég er þeirrar trúar að í öllum aðstæðum felast tækifæri.
Ef ramminn er aðeins stækkaður, þá er auðvelt að sjá hlutina í öðruvísi samhengi. Tökum eitt skemmtilegt samhengi... móðir náttúra.
Okkar kynslóð, þ.e. hin svokallaða x-kynslóð og y-kynslóðin, hefur aldrei kynnst almennilegri niðursveiflu eða kreppu. Ekki í það minnsta sem þátttakendur. Stöðugur uppgangur, góðæri, uppskera... Þetta hefur líklega átt einhvern þátt í hvernig viðhorfið og viðmótið til þessa ástands í dag hljómar. Við höfum skynjað endalaust sumar, endalausa uppskeru. Þessu má líkja við að búa í einhverri töfraveröld þar sem einungis eru tvær eða þrjár árstíðir. Vor, sumar og haust. Planta fræjum (tækifærum), vökva og uppskera. Planta meira, og uppskera meira.
Ef náttúran er hinsvegar skoðuð, þá mátti reikna með þessu "ástandi" sem nú er með löngum fyrirvara. Þetta kallast einfaldlega vetur. Gangur lífsins... jafnvægi... gerir ráð fyrir að á eftir góðri uppskeru kemur einfaldlega vetur.
Þetta hljómar auðvitað geðbilun, að vera að tala um einhvern vetur um mitt sumar, og meira að segja meiriháttar sumar. Sól og blíða, hiti, sólböð, ferðalög og sumarfrí. En þannig er mitt mat á þessu. Efnahagslegur vetur. Það gleðilega við þetta er auðvitað að á eftir vetri kemur.... vor. Sem er tíminn til að planta. Fyrir þá sem eru reiðubúnir auðvitað. Tilbúnir í slaginn.
Það er til skemmtileg heimspeki sem kallast einfaldlega mauraheimspekin. Sérstaklega góð til að kenna krökkum, en okkur fullorðna fólkinu líka ef við höfum aldrei lært hana.
Maurar gefast aldrei upp. Uppgjöf er einfaldlega ekki til í þeirra orðabók. Ef þeir eru á leiðinni eitthvert, og ílla þenkjandi aðili setur stein í þeirra götu... þá fara þeir undir, yfir, til hliðar, eða einfaldlega í gegnum grjótið. Annaðhvort það eða drepast. Það eru einu tveir valkostirnir. Maurar hugsa neikvætt allt sumarið. Allt sumarið (góðærið) þá leggja þeir til hliðar... þeir vita að það er vetur á leiðinni. Yfir veturinn þá vill maður hafa úrræði. En hér endar ekki sagan. Þeir eru ekki bara einhverjir svartsýnispostular. Þegar veturinn smellur á... þá hugsa maurar jákvætt allan veturinn. Hugsa um sumarið sem er á leiðinni. Þeir vita nefnilega að vetrinum mun ljúka og þá er best að vera tilbúinn til leiks um vorið!
Þetta snýst allt um viðhorf. Nú er vetur... nú er málið að hugsa jákvætt... hugsa um tækifærin.
Hvaða bækur hef ég ætlað að lesa en ekki gefið mér tíma til? Hvað námskeið gæti verið sniðugt að kíkja á? Í hvaða nám hefur mig langað en ekki haft tíma? Hvað hefur mig langað að læra en ekki haft tíma?
Hvað gæti gert mig betri, hæfari, vitrari, gefur mér aukna þekkingu þannig að þegar vorið kemur... þá er ég tilbúinn til að planta? Takast á við næsta "góðæri" á mínum eigin forsendum?
Fyrir þá sem kjósa að nota þetta tímabil sem undirbúning fyrir framhaldið þá hvet ég áhugasama að kíkja á starfið okkar í JCI Reykjavík nú í haust. Við höfum einfalda hugsjón - að nýta "frítíma" til að skapa aukin tækifæri fyrir þig og okkur... þjálfa forystu og leiðtogahæfileika og gera okkur að hæfari einstaklingum og betra fólki.
Okkur væri heiður að sjá ykkur bætast í hópinn. Sjáumst í starfinu...
HG
Bloggar | Breytt 5.8.2008 kl. 14:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
JCI Nordic Debate helgi
18.3.2008 | 16:12
Nú um helgina slógu JCI Reykjavík og JCI Esja saman strengi sína við skipulagningu alþjóðlegs helgarnámskeiðs í kappræðum. Mættir voru til leiks tæplega 20 manns, sterk þáttaka frá bæði félagsmönnum þessa tveggja félaga, ásamt einum tilvonandi félagsmanni JCI Reykjavíkur og 5 erlendum gestum sem voru gagngert mættir til að fá þessa þjálfun. Aðalleiðbeinandi helgarinnar var Carlo Van Tichelen, IG þjálfari og senator frá Belgíu. Honum til aðstoðar var formaður JCI Reykjavíkur, Helgi I. Guðmundsson sem aðstoðarþjálfari.
En af hverju kappræðuhelgi? Kappræður má skilgreina í kjarnann sem þá list að sannfæra gagnrýnan hóp um hugmynd eða afstöðu. Það að fá gagnvirka þjálfun í þessari list er því gríðarlega gott og snertir á mörgum flötum. Allt frá einföldum vinnufundum, sölufundum, samningaviðræðum, húsfundum, kynningum í skólum, vörnum á lokaverkefnum... allt eru þetta aðstæður þar sem við kynnum eitthvað sem við höfum lagt undirbúning í. Jafnframt eru viðstaddir einstaklingar sem spanna allan skalann, frá því að vera sammála okkur yfir í að vera skeptískir yfir í að vera hreint og beint ósammála okkur... og sitja ekki á þeim skoðunum.
Þetta er það sem við vorum að þjálfa þessa helgi ásamt því að blanda saman því sem ómissandi er við JCI viðburði... skemmtun og góðum félagsskap. Það að vera í bústöðum í Munaðarnesi, sækja praktíska og skemmtilega þjálfun, grillandi og slakandi á í heitum pottum frameftir kvöldi við þetta veðurfar sem við fengum um helgina... gerist ekki mikið betra.
JCI Reykjavík.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Komdu fram við aðra eins og þú vilt láta koma fram við þig... eða hvað?
12.3.2008 | 16:40
Gullna reglan hefur þjónað mörgum ansi vel í samskiptum og er góð til síns brúks, í það minnsta er ekki gott að traðka of harkalega á henni.
Hitt er svo annað að öll könnumst við við aðstæður þar sem við hittum sumt fólk og það bara smellur fullkomlega... instant kemistría og okkur líkar rosalega vel við viðkomandi.
Eins koma upp aðstæður þar sem við hittum fólk sem okkur er ílla við nánast frá fyrstu mínútu. Vitum ekki alveg af hverju, það er bara "eitthvað við það".
Áskorun í nútímaþjóðfélagi er að samskipti eru margfalt meiri og í vissum skilningi flóknari en voru hér áður fyrr. Fleiri miðlar, meira á boðstólnum... ástæður eru margar. Eitt sem við höfum hinsvegar ekki er sá lúxus að velja undir öllum kringumstæðum hverja við vinnum með. Stundum þarf maður að bíta á jaxlinn og eiga samskipti, já og jafnvel ná samkomulagi við aðila þar sem kærleikurinn er ekki sá mesti í heimi.
Þar kemur inn hin svokallaða Platínuregla - tekur gullnu regluna upp á næsta level, og segir frekar... komdu fram við aðra eins og þeir vilja láta koma fram við sig. Hljómar flókið ekki satt? En einfalt dæmi... við þekkjum aðila sem okkur finnst óstjórnlega væmnir... eða aðila sem okkur finnst óþægilega blátt áfram... og svo framvegis. Við gætum meira að segja verið í öðrum hvorum hópnum. Ef við notum gullnu regluna... þá kemur sá væmni fram við hinn beinskeytta á væminn hátt. Sem sá beinskeytti bókstaflega þolir ekki. Og öfugt. Samkvæmt gullnu reglunni fyndist þeim væmna sá beinskeytti vera full tilfinningalaus og kaldur...
Jamm, þetta er flókinn heimur. Sem betur fer er hægt að læra þessa hluti, og nú í kvöld er systurfélag okkar, JCI Esja, að standa fyrir námskeiðinu Platínureglan. Það sem meðal annars lærist eru þeir 4 grunn "stílar" sem fólk gjarnan tileinkar sér í samskiptum, kostir og gallar við hvern, hvernig við sjálf erum, og hvernig við getum með einföldum hætti lesið fólkið í kringum okkur og tileinkað okkur grunn aðlögunarhæfni.
Frábært námskeið, og hvet alla sem áhuga hafa á bættum samskiptum í sínu lífi að gefa því skoðun.
Helgi Guðmundsson, formaður JCI Reykjavíkur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hver talar meira... karlar eða konur?
27.2.2008 | 10:07
Held að allir viti nú svarið við þessu.... eða hvað? Nýleg könnun í USA bendir til að algeng staðalímynd sé fölsk. Karlmenn tali semsagt meira en konur.
Eitt skal reyndar tekið fram, eins og allaf þá er hegðun kynjanna ólík. Það sem kannski er markverðast við þessa könnun er að karlmenn tala meira en konur við ókunnuga eða fólk sem þeir þekkja lítillega.
En hvaða vísbendingar gefur þetta okkur, ef við setjum þetta í eitthvð samhengi við algengar rökræður í dag?
Jú, hvað kaup og kjör varðar, stöður í fyrirtækjum, sýnilegt frumkvæði og þessháttar hluti þá er gjarnan talað um að konur séu í lakari stöðu en karlpeningurinn. Eflaust eitthvað til í því, hinsvegar bendir þetta einnig til áhugaverðrar niðurstöðu. Til að sletta á enskunni - "perception is reality!". Heyrði sláandi dæmi nýlega, þar sem ung dama, háskólanemi, hafði unnið lokaverkefni og kom að því að halda kynningu á því. Eitthvað stressaðist hún upp yfir þessu og treysti sér varlega til verksins þannig að hún samdi við kunningja sinn að halda kynninguna fyrir sig. Hvað gerist í framhaldinu? Aðilar sem fylgdust með kynningunni gefa sig á tal við þennan kunningja hennar, sem nota bene var karlkyns, og fá hann í það verk að þróa áfram þetta verkefni.
Hrópandi ósanngirni, myndu langflest okkar hrópa? En þetta er hinsvegar veruleikinn. Ný tækifæri, hvort sem um er að ræða ný viðskipti, bera sig eftir nýju starfi, nýrri stöðuveitingu eða hverju sem er... þá höfum við ekki alltaf þann lúxus að "þekkja" vel til þess sem við þurfum að ræða við, eða þá sem við þurfum að kynna fyrir. Þá kemur sér vel hæfileiki að geta borið sig eftir hlutunum og vera óragur eða órög við að gefa sig á tal við ókunnuga.
Galdurinn við þetta allt saman er svo sá að þetta er ekki "eitthvað sem þú hefur, eða hefur ekki í þér!". Öll samskipti, og öll samskiptahegðun eru lærð hegðun. Eina sem til þarf er að vilja þrýsta dáldið á þann ramma sem maður hefur skapað sér, brjóta ísinn og læra nýja færni.
Við hjá JCI Reykjavík bjóðum einmitt slík tækifæri, bæði í formi námskeiða og svo félagsstarfs sem býður tækifæri til að nýta reglulega þann fróðleik og þá þekkingu sem kemur á námskeiðum. Hvetjum alla sem áhuga hafa á að auka sína möguleika á öllum sviðum lífsins að gefa okkur skoðun, setja sig í samband og mæta á kynningu hjá okkur. Sér í lagi metnaðarfullar konur
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
40 ára afmælisfagnaður
20.10.2007 | 22:53
Nú á föstudaginn 12.okt síðastliðinn fór fram afar flottur viðburður, þ.e. 40 ára afmæli félagsins. Þetta hefur átt töluverðan aðdraganda enda afmælisnefnd unnið að þessu markvisst má segja frá í febrúar/mars.
Skemmst frá því að segja að maður var óneitanlega nett stoltur af þessu öllu saman... hófst á forsetakokteil í JCI húsinu þar sem félagsmenn og gestir hófu að streyma að fljótlega uppúr hálf-sjö. Fyrstir á svæðið voru sannkallaðar goðsagnir (ekki það að ég hafi þekkt mikið til þeirra, en mér var tjáð það afar mynduglega að nú væri ég í nærvist goðsagna ) og ég að sjálfsögðu tók það gott og gilt. Eins var þarna duglega mætt af senatorunum okkar ásamt annarra í hreyfingunni þ.a. vitandi það að ég þyrfti að flytja ræðu innan skammst þá fóru smá fiðrildi að flögra um rétt fyrir ofan beltisstað. Gerist ekki svo ýkja oft í dag reyndar, en þarna innan um goðsagnir og heiðursfélaga þá auðvitað var þetta bara eðlilegt.
JCI húsið er ekki mjög stórt og innan skamms var búið að fylla ágætlega í þetta rými, þ.a. ég flutti þarna nokkur viðeigandi orð sem enduðu á klassískri skál. Nokkrir aðrir nýttu einnig tækifærið til að tjá sig, þar á meðal fyrsti forseti félagsins Ólafur Stephensen, og gaf félaginu fyrstu fundargerðarbókina frá stofnárinu. Smá húmor fylgdi auðvitað máli þar sem það var fyrsta konan sem gekk í félagið sem hafði geymt skrudduna eins og ormur á gulli. Húmorinn þá aðallega fólginn í því að fyrstu árin var þetta auðvitað hið harðasta karlafélag og engu kvenfólki var hleypt inn um þá merku menn. Einnig var félaginu gefið um 20 eintök af ný-endurútgefinni fundarskapabók, sem kemur að góðu gagni þar sem alkunna er að í JCI Reykjavík er einhvert hæsta hlutfall hreyfingarinnar af aðilum sem dagsdaglega kallast fundarterroristar. Það er að segja aðilar sem geta leikið sér fram og aftur á fundum útfrá þeim leikreglum sem um þá gilda, annaðhvort til góðs eða ílls fyrir fundinn. Til gamans má auðvitað nefna að útfrá leikreglum þessarar bókar hefðu einn eða tveir þeirra hæglega kæft þetta REI mál í fæðingu hefðu þeir verið á hinum fræga eigendafundi, þar sem klárlega var ólöglega boðað til fundar þar sem ákvarðanir voru teknar. Hvað svosem formaður lögmannafélags Íslands hafði um málið að segja sem fundarstjóri.
Frá JCI Húsinu var haldið niður í Iðusali á Lækjargötu þar sem mannskapurinn minglaði til að byrja með, var svo vísað til sæta og ballið hafið. Þetta gekk að vel og röggsamlega fyrir sig undir einbeittri veislustjórn Ragnars F. Valssonar, sem öllum að óvörum gerði aðallega grín að sjálfum sér til að halda uppi smá húmor, en það þykir nýlunda á þeim bæ.
Glæsilegir ræðumenn stigu upp í pontu, þar sem fyrstur til leiks var nafni minn Hjálmsson, þ.e. Helgi Hjálmsson, einn af fyrstu senatorum félagsins og kempa frá upphafsárum félagsins. Sagði hann okkur frá þessari tíð, uppgangsárum félagsins, og höfðu gestir gaman af enda skemmtilegur ræðumaður á ferð. Einnig mættu uppí pontu fulltrúar nýliða, Arnar Már Búason og Kristófer Júlíus Leifsson, sem einnig fluttu glæsilega ræðu. Framtíðarefni þar á ferð. Fulltrúar annarra aðildarfélaga, forsetarnir Tómas Hafliðason og Hrólfur Sigurðsson sáu í raun um viðbótarskemmtiatriði þarna inní dagskrána þar sem þeir gáfu félaginu gjafir og nýttu tækifærið til að skopast duglega að hvorum öðrum við mikinn fögnuð gesta. Landsforsetinn okkar Jenný Jóakimsdóttir færði félaginu glæsilega gjöf sem mun prýða veggjapláss í JCI húsinu fyrir þá sem hafa áhuga á að bera djásnið augum.
X-faktor stjarnan Jógvan var aðalskemmtiatriði kvöldsins og reif upp rífandi gítarstemningu rétt í tæka tíð fyrir eftirréttinn, og sjálfur átti ég svo lokaorð á formlegri dagskrá. Ekkert sældarlíf að vísu að flytja síðustu ræðuna eftir þær ræður sem á undan höfðu gengið. Eins og góðum ræðum sæmir þá man ég varla hvað ég sagði þarna uppi en virðist hafa komist þokkalega frá þessu. Átti svosem auðveldan endi á þessu öllu saman með því að útnefna nýjasta senatorinn okkar, Huldu Sigfúsdóttir, og reif þarmeð upp hálfan salinn (senatorana alla) til að skála fyrir fyrir því. Það er semsagt hefð að viðstaddir senatorar skála fyrir þessari æðstu útnefningu hreyfingarinnar í kampavíni.
Allt í allt þá var þetta glimrandi góð skemmtun, flott fólk, flottur matur, góð skemmtiatriði, flottar ræður, góður húmor í gangi á köflum og allt í allt hæfilega formlegt án þess að fara útí einhverjar öfgar. Allt auðvitað aðalsmerki JCI Reykjavíkur sem félags... og ég fyrir mitt leyti vona svo sannarlega að sé sá þáttur starfsins sem aldrei muni breytast.
Það var ekki annað hægt en að vera stoltur forseti þetta kvöld í návist þeirra frábæru félaga sem nú eru starfandi í félaginu, með þá félaga sem eiga skilið allar þakkir og hrós fyrir þau 40 starfsár sem liðin eru til að samfagna með okkur, ásamt að sjálfsögðu maka og góðra gesta sem mættir einnig til leiks.
Orðin dáldil ritgerð... búin að meltast í mér í rúma viku og ákvað að koma þessu í skriflegt og fara að einbeita mér að öðrum þarfari verkum
Þakka afmælinefndinni frábær störf, og óska öllum félagsmönnum, núverandi sem og félagsmönnum liðinna tíma, til hamingju með félagið okkar!
Helgi Guðmundsson, Forseti JCI Reykjavikur 2007.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Verðlaun á landsþingi 2007
7.10.2007 | 14:29
JCI Reykjavík uppskar vel á liðnu landsþingi um síðustu helgi á Reykjanesi sem var haldið af JCI Vestfjörðum í ár og var í einu orði sagt óhemju skemmtilegt og göldrótt!
Lið JCI Reykjavíkur hafði sigur úr bítum í viðeign sinni við JCI GK í úrslitakeppninni í Rökræðu og átti ennfremur ræðumann dagsins: Ragnar F. Valsson. Liðið skipaði: Leifur Runólfsson liðstjóri, Ragnar F. Valsson frummælandi (og flutti samantekt), Guðrún Guðmundsdóttir og Theodór Bender.
Verðlaun á landsþingi 2007:
Karl Einarsson, sentor ársins
Ragnar F. Valsson, ræðumaður ársins
Ragnar F. Valsson, félagi ársins.
Karl Einarsson lögsögumaður JCI, og Guðrún Guðmundsóttir formaður BB-plan hlutu forsetaviðurkenningu fyrir framúrskarandi störf á árinu. Þá hlaut Helgi Guðmundsson forseti félagins forsetaviðurkenningu líkt og aðrir forsetar AF.
Guðrún Guðmundsdóttir var kosin í landsstjórn 2008 og gegnir þar hlutverki varalandsforseta.
JCI Reykjavík bauð í næsta landsþing, og var það einróma samþykkt og verður því næsta landsþing haldið með pompi og pragt í Reykholti (Borgarfirði).
Hlakka annars til að sjá ykkur sem flest á stórafmæli JCI Reykjavíkur næsta föstudag 12. október, við skráningum tekur karl@jci.is
Anna María
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6 félagar gengu til liðs við félagið, 20. ágúst
27.8.2007 | 22:29
Síðasta mánudag fór fram lokakvöld Ræðu I í sjálfstæðissalnum í Mjódd, þar útskrifuðust 6 flottir einstaklingar af ræðu I .Umræðuefnið var: Lagt er til að banna útlendingum að koma til Íslands. Úrslitin fóru þannig að lið tillöguflytjenda hafði sigur en ræðumaður dagssins kom úr röðum andmælanda; Kristófer Leifsson.Af þessum 6 gengu 5 til liðs við félagið:Arnar Már Búason, Kristófer Leifsson, Íris K. Andrésdóttir, Júlía T. Kimsdóttir og Ollý Aðalgeirsdóttir. Að auki gekk inn Iðunn A. Ólafsdóttir (hún útskrifaðist af ræðu I fyrr í sumar).Óskum við nýju félögunum innilega til hamingju með inngönguna og hlökkum til að sjá meira af þeim í framtíðinni innan raða JCI!p.s. minni á félagsfundinn á þriðjudaginn kemur - samtökin Fair Trade verða gestir fundarins!
Anna María Bjarnadóttir liðstjóri mótmælanda (alheimsvina)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ræðukeppni og brúðkaup!!!
18.3.2007 | 01:02
Jamm, í dag var viðburðarríkur dagur hjá okkur JCI Reykvíkingum, þar sem snemma í dag mættum við liðið JCI Esju í 2. umferð rökræðukeppni. Voru þeir í Esju mættir til leiks með eitthvað á hornum sér hvað varðar kossa og önnur ástaratlot á almannafæri og mæltu fyrir að slíkt yrði bannað með lögum.
Eins og alþjóð veit þá er þetta auðvitað rakin fásinna og okkar menn voru mættir til leiks, klárir í slaginn, og snéru þessa tillögu í gólfið með því sama. Höfðum sigur, þó Esjan hafi staðið uppi með ræðumann dagsins - hann nafna minn Cleaessen.
Enda eins fallegt, að þessi fásinna hafi ekki náð fram að ganga, því nánast í beinu framhaldi mættum við nokkrir félagar í brúðkaup varaforseta okkar í ár... Guðrúnar Guðmundsdóttir... þar sem hún gekst að eiga Michael frá landinu niðri undir (the land from down under...) eða semsagt Ástralíu. Guðrún skellti sér þangað til náms fyrir réttum tveimur árum síðan og kom heim öllu ríkari en hún fór út, eða með karl í farteskinu. Hinn vænsti drengur þar á ferð. Athöfnin lukkaðist vel og var ágætlega stutt einnig, sem er alltaf kostur, en eins fallegt að okkar menn kváðu þessa tillögu um kossa og önnur ástaratlot í kútinn fyrr um daginn þar sem varaforsetinn okkar hefði gerst glæpamaður þar og þá hefðu þeir í JCI Esju haft tillögu sína í gegn.
Þaðan var farið í veislu í Akoges-salnum sem er hinn glæsilegasti, þar sem afar vel var veitt af mat, drykkjum, eftirréttum, og loks dúndrandi djammi þar á eftir.
Flottur dagur, óskum ræðuliði okkar til hamingju með sigurinn, óskum Guðrúni hjartanlega til hamingju með daginn og góðrar ferðar í þessu nýja ferðalagi sem hófst hjá henni í dag.
Kv,
Helgi Guðmundsson, forseti JCI Reykjavíkur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.keppni - 1. umferð Rökræðukeppni JCI Íslands
1.3.2007 | 18:41
Laugardaginn 3. mars fór fram hörkuspennandi ræðukeppni þar sem öttu kappi JCI Reykjavík gegn hina sterka liði JCI Vestfjörðum. Í okkar liði voru Ásbjörn Ólafsson frummælandi, Theadór Bender stuðningsmaður og Ingólfur Pétursson meðmælandi. Liðstjóri var Helgi Guðmundsson forseti JCI Reykjavíkur. Umræðuefnið var: "Lagt er til að foreldrar velji börnin sínum maka" og var okkar lið tillöguflytjendur. Okkar menn höfðu æft sig af kappi fyrir keppnina og mættu sterkir til leiks og voru ekki með neina tæpitungu, heldur voru þeir gífurlega sannfærandi enda einn af þeim 3ja barna faðir og annar "sannur sonur" og skein í gegn traustið sem hann bar til foreldra sinna og augljóst að hann myndi hlýta þeirra ákvörðun ef þau veldu konu handa honum. Fóru leikar þannig eftir æsispennandi keppni að okkar menn unnu Vestfirðingana en titilinn "ræðumaður dagssins" hlaut Linda Pétursdóttir JCI Vestfjörðum. Það verður skemmtilegt að fylgjast með seinni umferð Rökræðukeppninnar þar sem okkar lið mætir liði JCI Esju.
Höfundur: Anna María Bjarnadóttir gjaldkeri JCI Reykjavíkur
|
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Rauðvín Ostar og ljóð... framhald!
24.2.2007 | 10:22
Þriðjudagskvöld síðastliðið var haldinn Rauðvíns, Osta og ljóðafundur JCI Reykjavíkur. Fundurinn var hinn skemmtilegast þar sem veislustjórinn Karl Einarsson stýrði veislunni farsællega, og gestur fundarins Guðrún Eva Mínervudóttir fór á kostum í upplesningu á nýjustu bók sinni, Yosoy.
Upplýsti hún gesti um að titillinn væri markleysa... væri orð sem þýddi ekkert og tók svo til við að lesa uppúr einum kaflanum sem klikkti út með einhverri mögnuðustu dauðalýsingu sem undirritaður hefur heyrt. Að því loknu svaraði hún fyrirspurnum gesta, sem voru margar og fjölbreytilegar.
Þvínæst tóku gestir sjálfir til við skemmtiatriðin. Lesin og flutt voru ýmis ljóð, og svo gerðist fáheyrður viðburður... haldið var sakamál. Gerðist það í framhaldi af því að forseti félagsins og fráfarandi gjaldkeri afhenti núverandi gjaldkera, Önnu Maríu Bjarnadóttur, merkisgripinn hattinn Olsen Olsen. Téður hattur er notaður af gjaldkera félagsins til að rukka inn klink þeirra félagsmanna sem mæta á fundi án barmmerkis jci félaga, og hefur hann ásamt forvera sínum, hattinum Olsen, gengt því hlutverki nánast frá stofnun félagsin.
Ragnari F. Valssyni fannst veislustjóri sýna fáheyrðan ruddaskap er hann kallaði hattinn röngu nafni, þ.e. Olsen, og höfðaði því sakamál. Fyrir óinnvígða þýðir það að einn félagsmaður JCI Reykjavíkur höfðar mál á hendur öðrum... dómari er útnefndur á fundinum, báðir aðilar standa fyrir máli sínu, og dómari kveður úrskurð og hæfilega refsingu sé hinn ákærði dæmdur sekur.
Hinn ákærði reyndist sekur í þessu máli, og var dómurinn afar þungur... ákærandi og hinn ákærði voru dæmdir til að faðmast og kyssast, eitthvað sem samkvæmt öruggum heimildum er þeim hin ógeðfeldasta athöfn, sérstaklega gagnvart hvorum öðrum. Refsingin semsagt hæfði glæpnum, og sakamálið farsællega leyst.
Þetta var því kvöld góðra veitinga, góðra frásagna frá gesti fundarins ásamt öðrum veislugestum, skemmtilegra uppákoma og allt í allt glæsilegur fundur.
HG.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)